Erlent

Leysibendlar bannaðir í Ástralíu vegna flugtruflana

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þota. Myndin tengist ekki þessari frétt.
Þota. Myndin tengist ekki þessari frétt. MYND/Heiða Helgadóttir

Leysigeislabendlar hafa verið flokkaðir með vopnum í New South Wales-fylki og allt að 14 ára fangelsi lagt við notkun þeirra án tilskilinna leyfa. Þetta gerist í kjölfar ítrekaðra tilfella þar sem slíkum geislum hefur verið beint að stjórnklefum flugvéla sem eru að lenda eða hefja sig á loft.

„Þessi háttsemi ber vott um hugleysi og aumingjaskap og getur orsakað harmleik. Flugmaður getur blindast tímabundið á broti úr sekúndu," sagði Morris Iemma, fylkisstjóri í New South Wales.

Síðasta atvik þessarar tegundar var um helgina þegar grænum geisla var beint að flugstjórnarklefa sjúkraþyrlu yfir flugvelli. Ríkisstjórn Ástralíu hefur tilkynnt um innflutningstakmarkanir á leysigeislabúnaði eins og þeim sem hér er rætt um og hafa þær tekið gildi. Geislabendlar af þeim styrkleika sem notaðir hafa verið til að trufla flugmenn eru einkum notaðir af stjarnvísindamönnum til að benda í átt að svæðum í himingeimnum við athuganir.

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×