Innlent

Leiðinlegt að hafa ekki getað klárað þáttinn

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segir leiðinlegt að ekki hafi verið hægt að klára Kryddsíldina og ræða málin. Hann segir alltaf leiðinlegt þegar mótmæli fari úr böndunum en hann skilur fólk sem er að mótmæla fyrir daufum eyrum stjórnvalda. Steingrímur segir að nú ætti að boða til kosninga.

„Þetta var endsleppt og það er leiðinlegt að við höfum ekki getað klárað að ræða málin enda var margt sem ég hefði viljað ræða. Eftir á að hyggja var kannski óheppilegt að hafa þetta niður við Austurvöll," segir Steingrímur sem kominn var á sína skrifstofu og var að svara tölvupóstum þegar Vísir náði af honum tali.

„Það er leiðinlegt þegar mótmæli fara úr böndunum og skemmdir og pústrar ná yfirtökunum. Ég er að sjálfsögðu ekki að mæla með slíku en fólk hefur sinn rétt til að mótmæla," segir Steingrímur.

Hann segir að þegar mótmælendur tali fyrir daufum eyrum stjórnvalda sé alltaf hætta á að mótmælin fari úr böndunum.

„Aðal krafan er að boðað verði til kosninga á friðsamlegan hátt. Ég tel það mikil mistök hjá stjórnvöldum að hlusta ekki á þær kröfur því vænlegasta leiðin til þess að útkljá þessa hluti er að boða til kosninga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×