Lífið

Heldur glæsilega flugeldasýningu við Litla Hraun í kvöld

Vísir sagði frá Róberti Guðmundssyni íbúa á Eyrarbakka sem ætlar að skjóta upp flugeldum fyrir fangana á Litla Hrauni í kvöld. Þá var hann búinn að fá gefins 9 tertur. Nú eru þær orðnar 20. Hann hvetur fólk í nágrenninu til þess að mæta og horfa á.

„Eigum við ekki að segja að ég hafi fengið þetta frá velunnurum Litla Hrauns," segir Róbert en sýningin hefst klukkan 20:00.

„Ég fékk þessa hugmynd fyrir þremur árum þegar ég fór að hugsa til strákanna í myrkrinu á Litla Hrauni. Út frá því fór ég síðan að skjóta upp flugeldum fyrir þá sem mældist mjög vel fyrir. Núna er þetta svona fastur liður hjá þeim," segir Róbert sem stendur einn að baki sýningunni.

Hann hefur alltaf skotið upp frá fótboltavellinum á bak við Litla Hraun klukkan 20:00 á Gamlárskvöld og það verður engin breyting á í ár.

„Ég er búinn að fá svo mikið af flugeldum að ég hugsa að ég hafi aldrei sprengt svona mikið, og ég er að verða fertugur," segir Róbert sem hefur fengið stuðning frá fjölmörgum aðilum.

„Ég gef mína vinnu alla. Bubbi sér um þá á aðfangadag og ég á Gamlárskvöld," segir Róbert og hlær.

Róbert vill þakka Landsbjörgu, Björgunarsveitinni Björgu og Garðyrkjustöð Ingibjargar í Hveragerði sem hafa styrkt hann vegleg fyrir sýninguna í ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.