Erlent

Pútín verður forsætisráðherra

Búist er við því að rússneska þingið gefi í dag samþykki sitt fyrir því að Vladimír Pútin verði skipaður forsætisráðherra Rússlands.

Dimitry Medvedev sór embættiseið sinn sem forseti landsins í gær og fyrsta embættisverk hans var að skipa Vladimir Pútin, fyrrverandi forseta, forsætisráðherra. Rússneska dúman greiðir atkvæði um tillöguna í dag og talið er öruggt að hún verði samþykkt.

Stjórnmálaskýrendur telja að völd forætisráðherra verði aukin í kjölfarið en hingað til hefur forsetinn verið mun valdameiri en forsætisráðherrann. Pútin gat ekki setið lengur á forsetastóli og því fékk hann Medvedev, náinn aðstoðarmann sinn til margra ára til að taka við kyndlinum.

Spurningin um hver ráði í raun ríkjum í Kremlín verður því enn um sinn viðvarandi en ýmisr telja að Pútin hyggist sækast eftir forsetaembættinu að nýju eftir að yfirstandandi kjörtímabili lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×