Innlent

Vatnalaganefnd vill breytingar á lögunum

Lúðvík Bergvinsson er formaður Vatnalaganefndar.
Lúðvík Bergvinsson er formaður Vatnalaganefndar. MYND/GVA
Svokölluð Vatnalaganefnd, sem sett var á laggirnar vegna deilna um vatnalög, leggur til fjórar breytingar á lögunum, þar á meðal að gildistöku laganna verði frestað. Fram kemur í tilkynningu frá nefndinni að hún hafi skilað tillögum sínum til iðnaðarráðherra ásamt ítarlegri skýrslu um vatnsréttindi og vatnalöggjöf.

Vatnalaganefndin, sem skipuð var bæði stjórnmálamönnum og lögfræðingum, átti rætur að rekja til samkomulags um meðferð frumvarps til vatnalaga sem gert var á Alþingi vorið 2006 en með því var þess freistað að binda enda á þær erfiðu og miklu deilur sem uppi höfðu verið um efni frumvarpsins.

„Samkomulagið fól í sér að gildistöku vatnalaga skyldi frestað og að jafnframt að iðnaðarráðherra skyldi skipa nefnd til að fara yfir lögin og skoða samræmi þeirra við önnur lagaákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varða," segir í tilkynningunni.

Meðal þess sem nefndin leggur til að breytt verði í vatnalögunum eru skýrari heimildir sem rétt þyki að almenningur hafi gagnvart vatni, að lögin taki mið bæði af hagsmunum landeigenda og almennings og leggi áherslu á samfélagslega hagsmuni tengda nýtingu og vernd vatnsauðlindarinnar og að stjórnsýsluákvæði vatnalaga verði endurskoðuð.

Að lokum leggur Vatnalaganefnd til að gildistöku vatnalaganna verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur Vatnalaganefndar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×