Innlent

Strætó aftur á næturnar?

Gott væri að geta nýtt sér þjónustu strætó á næturnar.
Gott væri að geta nýtt sér þjónustu strætó á næturnar.

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri vill taka aftur upp næturstrætisvagnaleiðir úr miðborginni um helgar samkvæmt Fréttablaðinu í dag. Ættu þær leiðir að fara á klukkutímafresti á milli þrjú og fimm. Slíkar leiðir voru farnar um nokkurra ára skeið en hætt árið 2002 samkvæmt Ásgeiri Eiríkssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Strætó bs., vegna lítillar aðsóknar.

Samkvæmt Ásgeiri var góð ásókn í næturstrætisvagna alveg þangað til að opnunartími veitinga-og skemmtistaða var gefinn frjáls. Fyrir það lokaði flestallt kl. þrjú þannig að strætisvagnarnir fóru kl hálfþrjú og hálffjögur þegar margir voru á heimleið.

Eftir þær breytingar hefði fólk hins vegar verið á leiðinni heim á svo misjöfnum tíma að það hefði bara verið hræða á stangli sem nýtti sér þjónustuna. Hann taldi sig ekki hafa neinar forsendur til þess að meta hvort tilraunin myndi heppnast ef farið yrði í hana nú en kreppan gæti stuðlað að meiri aðsókn í næturstrætisvagna.

Ingunn Guðnadóttur, trúnaðarmaður strætisvagnabílstjóra, sagði í samtali við Vísi að henni litist ekki illa á þessa hugmynd og að það væri sjálfsagt að gefa þessu tækifæri. Fólk þyrfti hins vegar að nýta sér þessa þjónustu og ekki væri hægt að kvarta eftir á ef engin yrði aðsóknin. Hún taldi líklegast skiptar skoðanir á meðal strætóbílstjóra en sjálf hefði hún stundum keyrt þessar leiðir og ekki lent í neinum erfiðleikum sem ekki væri hægt að yfirstíga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×