Innlent

Ísbjarnarbúrið var sótthreinsað fyrir komuna til landsins

Búrið var flutt frá Akureyri um Skagafjörð og út á Skagatá.
Búrið var flutt frá Akureyri um Skagafjörð og út á Skagatá. MYND/Valli

Búrið, sem flutt var inn til landsins frá Danmörku þegar fanga átti hvítabjörn sem gekk á landi við Hraun á Skaga fyrr í vikunni, var sótthreinsað fyrir komuna til landsins. Þetta staðfestir Hjalti J. Guðmundusson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun

Spurningar hafa vaknað um það hvort hætta hafi verið á því að dýrasjúkdómar bærust með búrinu frá Danmörku, en það hafði verið geymt í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. Innflutningur á hvers kyns landbúnaðartækjum og gripaflutningavögnum er bannaður samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma. Þó eru veittar undanþágur frá banninu með ákveðnum skilyrðum, þar á meðal að þrífa og sótthreinsa tækin með viðurkenndum sótthreinsiefnum. Þar segir einnig að við innflutning á gripaflutningavögnum skulu fjarlægja allt timbur og önnur þau efni sem ekki verði þvegin svo viðunandi sé.

Hjalti J. Guðmundsson, sviðsstjóri auðlinda hjá Umhverfisstofnun, segir að búrið hafi verið þrifið með tilteknum efnum fyrir komuna til landsins. „Þetta er standard verklag og búrið var sótthreinsað," segir Hjalti. Það er nú geymt inni á Akureyri og Hjalti segir aðspurður að hinkrað verði með að senda það úr landi, en hugmyndir eru uppi um að leigja það eða jafnvel kaupa.

Að sögn Björns Steinbjörnssonar, dýralæknis hjá Matvælastofnun, hefur málið ekki komið inn á hans borð en hann segir að ef farið hafi verið eftir gildandi reglum hafi búrið átt að vera sótthreinsað. Aðspurður telur hann litlar líkur á því að einhvers konar sjúkdómar berist með búrinu þrátt fyrir að það hafi verið í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. „Heilbrigðiskröfur í dýragörðum eru mjög miklar enda fer fjöldi fólks um þá á hverjum degi. Hættan á þessu er hverfandi og í dýragarðinum í Kaupmannahöfn starfa dýralæknar sem fylgjast með þessu," segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×