Innlent

Átta palestínskar fjölskyldur koma til landsins

Frá Al Waleed flóttamannabúðunum.
Frá Al Waleed flóttamannabúðunum. MYND/Félagsmálaráðuneytið

Átta palestínskum fjölskyldum verður boðið hæli hér á landi samkvæmt ákvörðun félagsmálaráðherra og utanríkisráðherra. Um er að ræða tíu konur, allar einstæðar mæður, og 19 börn. Mögulegt er að ein þessara fjölskyldna, kona með þrjú börn, sjái sér ekki fært að taka boði um hæli hér á landi en það skýrist á næstunni.

Eins og kunnugt er ákváðu stjórnvöld að taka á móti fólki sem býr sem flóttamenn í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak og fór sendinefnd nýverið út til að ræða við fjölskyldurnar. Til stendur að fólkið setjist að á Akranesi.

Nefndin kom nýverið heim og á fundi flóttamannanefndar fyrir viku gerði sendinefndin grein fyrir ferð sinni til Al Waleed og lagði fyrir nefndina tillögur sínar um hvaða einstaklingum skuli boðið hæli hér á landi. Flóttamannanefnd samþykkti tillögur nefndarinnar og hafa þær nú verið staðfestar af félags- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra eins og segir í tilkynningu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Að sögn fulltrúa í sendinefndinni hefur ekkert verið ofsagt um skelfilegar aðstæður í flóttamannabúðunum í Al Waleed.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×