Innlent

Umhverfisstofnun í viðbragðsstöðu ef bjarndýr finnst

Ísbjarnarspor.
Ísbjarnarspor.

Leit björgunarsveitarmanna og lögreglumanna að bjarndýrssporum sem pólskir ferðamenn sögðust hafa gengið fram á skammt frá Hveravöllum í gær hefur enn engan árangur borið.

Um 20 björgunarsveitarmenn og þrír lögreglumenn hafa frá því um tíuleytið kembt svæði suðvestur af Hveravöllum en ferðamennirnir voru á leið inn í Þjófadali þegar þeir rákust á sporin og flýttu sér til baka á Hveravelli.

Að sögn Vilhjálms Stefánssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Blönduósi, er leitarsvæðið talið vera um tólf ferkílómetrar og að einhverju leyti erfitt yfirferðar og þar sem leitarmenn séu fótgangandi megi búast við að leitin taki nokkurn tíma.

Ekki er talið útilokað að hvítabjörn sé svo langt inni í landi en tveir birnir hafa verið felldir í Skagafirði á síðustu vikum sem kunnugt er , einn á Þverárfjalli og annar við bæinn Hraun. Umhverfisstofnun er í viðbragðsstöðu ef svo fer að þriðji ísbjörninn kemur í leitirnar.

Yfirvöld hafa þegar sett sig í samband við erlenda sérfræðinga, meðal annars Danina sem komu að björgunartilraunum á Hrauni. Búrið sem flutt var hingað til lands vegna aðgerðanna á Hrauni er enn hér á landi. Finnist þriðji ísbjörninn þarf því einungis að kalla út mannskap með byssur og deyfilyf, en einnig er í athugun að útvega sérstaka þyrlu sem þarf í slíkar björgunaraðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×