Innlent

Framtíðarhúsakynni Listaháskólans kynnt í dag

Hér við Frakkarstíg verður framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands.
Hér við Frakkarstíg verður framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands.

Tilkynnt verður um úrslit í samkeppninni um hönnun nýbyggingar Listaháskóla Íslands við Laugaveg í dag. Af því tilefni verður opnuð sérstök sýning í dag klukkan 16 á sjálfum byggingarreitnum við Frakkarstíg, bak við húsin númer 41 til 45 á Laugaveg, og verður hún öllum opin í allt sumar.

Listaháskóli Íslands og fasteignaþróunarfélagið Samson Properties stóðu að samkeppninni í samstarfi við menntamálaráðuneyti og Arkitektafélag Íslands.

Alls bárust 20 tillögur og voru fimm þeirra þróaðar áfram á síðara þrepi keppninnar. Veitt eru þrenn verðlaun og er fyrirhugað að byggt verði eftir þeirri tillögu sem hlýtur fyrstu verðlaun. Stefnt er að því að skólinn geti flutt í nýja byggingu haustið 2011. 

Hjálmar H. Ragnarsson rektor og formaður dómnefndar og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra munu svipta hulunni af vinningstillögunum við opnun sýningarinnar í dag. Boðið verður upp á kakó og kleinur að hætti skólans og eru allir velkomnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×