Innlent

Komið í veg fyrir útigang með samstarfi og forvörnum

Jórunn Frímannsdóttir er formaður Velferðarráðs.
Jórunn Frímannsdóttir er formaður Velferðarráðs. MYND/GVA

Reykjavíkurborg hefur mótað sér stefnu til næstu fjögurra ára í málefnum utangarðsfólks sem meðal annars felur í sér að auka reglubundna þjónustu við það, styrkja tímabundin úrræði og fjölga langtímaúrræðum.

Reyna á að koma í veg fyrir útigang með forvörnum og samstarfi lögreglu, velferðarþjónustu og heilbrigðisyfirvalda. Stefnan var samþykkt á fundi velferðarráðs í dag. Er þetta fyrsta stefna sinnar tegundar á Íslandi og brautryðjandi sem slík eins og segir í tilkynningu borgarinnar.

Unnið hefur verið að stefnunni frá því í byrjun síðast árs í breiðri samvinnu allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga í borgarstjórn. Jafnframt hafa verið kallaðir til vinnunnar hagsmunaaðilar og fagfólk í málefnum utangarðsfólks til að tryggja að tekið sé tillit til ólíkra viðhorfa og faglegra sjónarmiða.

Þá segir í tilkynningunni að samhliða stefnumótunarvinnunni hafi tekið á bráðavanda hópsins og skammtímagistirýmum hafi verið fjölgað um fjögur og langtímagistirýmum um átta. Á næstu vikum verða fleiri tekin í gagnið.

„Utangarðsfólk glímir iðulega við margháttaðan félags- og heilbrigðisvanda, er félagslega einangrað og á oft að baki fangelsisvistir og sjúkrahúsdvalir. Til að geta aðlagast samfélaginu á ný þarf þessi hópur félagslegan stuðning, heilbrigðisþjónustu og húsnæði," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×