Innlent

Álverð lækkar um fjórðung á tveimur mánuðum

Heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað um 25 prósent á undanförnum tveimur mánuðum. Tómas Már Sigurðsson forstjóri Alcoa-Fjarðaáls segir álverð hins vegar enn vera mjög hátt en nú fást um 2.500 bandaríkjadalir fyrir tonnið. Áætlanir Alcoa gera ráð fyrir að heimsmarkaðsverð sé um 1.600 dalir.

Mjög hátt verð ehfur fengist fyrir ál á heimsmarkaði að undanförnu og fór verðið hæst í 3.300 dollara í júlímánuði. Það hefur hins vegar lækkað hratt að undanförnu eða um 25 prósent á átta til níu vikum og er nú 2.500 dollarar fyrir tonnið.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa-Fjarðaáls, segir mönnum ekki bregða við þessa lækkun nú. Áætlanir fyrirtækisins hafi gert ráð fyrir að langtímaverð væri á bilinu 1.500 til 1.600 dollarar fyrir tonnið. Verðið sé því enn langtum hærra en þær áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá reikni menn með að álverð hækki fljótlega aftur og fari jafnvel ríflega yfir 3.000 dollara tonnið.

Tómas Már segir helstu skýringuna á lækkun álverðs vera lækkun á olíuverði en olía sé notuð á ýmsum framleiðslustigum fyrir hráefni sem notuð eru í áliðnaði. Þá hafi sá samdráttur sem nú er í heiminum sín áhrif. Þessi lækkun nú sé þörf áminning um að íslenskur áliðnaður starfi á heimsmarkaði og því sé mikilvægt að tryggja samkeppnisstöðu íslensku framleiðslunnar, t.d. með því að þrengja ekki óeðlilega að henni með of litlum kolefniskvótum. Álframleiðsla á Íslandi sé umhverfisvænni en á flestum öðrum stöðum og mikilvægt að halda þeirri staðreynd á lofti.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×