Innlent

Áhyggjur af Tónlistarhúsinu vegna stöðu Nýsis

Framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhús við Reykjavíkurhöfn eru í mikilli óvissu vegna fjárhagserfiðleika Nýsis. Menntamálaráðherra hefur áhyggjur af framhaldinu en gerir þó ráð fyrir því að verkinu verði lokið á umsömdum tíma.

Landsbankinn og Kaupþing hafa gert tilboð í allar eigur Nýsis og gildir tilboðið fram í næstu viku.

Nýsir hefur átt í verulegum fjárhagserfiðleikum að undanförnu en félagið skuldar tugi milljarða króna. Forstjóri félagsins hefur þó lýst því yfir í fjölmiðlum að fyrirtækið sé ekki gjaldþrota. Nýsir á 50 prósent hlut á móti Landsbankanum í eignarhaldsfélaginu Portus sem sér um uppbyggingu tónlistar og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn.

Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki í lok næsta árs en verklokum gæti seinkað verulega vegna fjárhagsörðugleika Nýsis.

Austurhöfn,, sem er í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, er samningsaðili Portus vegna framkvæmdanna, og leggur um 25 milljarða í verkefnið.

Menntamálaráðherra segist hafa áhyggjur af stöðu mála. „Ég ætla ekki að fara velta mér upp úr því hvort að Nýsir sé að fara í gjaldþrot eða ekki. Eins og staðan er í dag og gagnvart okkur sem erum viðsemjendur Portusar þá hefur ekkert komið fram sem að gefur okkur tilefni til að ætla það að það verði seinkanir á tónlistar og ráðstefnuhúsinu en auðvitað fylgist maður með gangi mála," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í samtali við Stöð 2.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×