Innlent

Ekkert rafmagn framleitt að Sultartanga fram yfir áramót

Ekkert rafmagn verður framleitt í Sultartangavirkjun í Þjórsá fram yfir áramót að minnsta kosti, eftir enn eina alvarlega bilun í orkuverinu í gærkvöldi. Ekki er þó hætta á rafmagnsskorti í vetur nema að frekari bilanir verði í kerfi Landsvirkjunar.

Atburðarásin hófst með því að annar spennir orkuversins brann yfir í nóvember í fyrra og hinn skömmu síðar. Viðgerð á þeim fyrr lauk í gær en hann bilaði aftur um leið og orku var hleypt á hann í gærkvöldi og nú þegar er ljóst að viðgerð lýkur ekki fyrr en eftir áramót eða einhvern tíma á næsta ári.

Síðari spennirinn, sem brann yfir í desember í fyrra, verður sendur út til framleiðanda á næstunni þar sem hann verður endurbyggður sem tekur nokkra mánuði að minnsta kosti.

Ef allur búnaður í öðrum orkuverum Landsvirkjunar gengur áfallalaust í vetur verður ekki raforkuskortur en hins vegar getur komið til þess að svokölluð umframorka til stórfyrirtækja verði skert á miklum álagstímum.

Viðgerðarkostnaður, að meðtöldum viðgerðarkostnaði við spenninn sem sendur verður úr landi, nemur nú þegar 200 milljónum króna en ekki liggur fyrir hversu mikill kostnaðurinn verður vegna bilunarinnar í gærkvöld.

Framleiðslugeta stöðvarinnar í fullum afköstum gæti um það bil fullnægt raforku þörf Reykvíkinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×