Innlent

Lækurinn sem varð að fljóti

Kristján Steinarsson, vöruflutningabílstjóri hjá Flytjanda komst í hann krappan í gær þegar hringveginum skolaði bókstaflega burt á 200 metra kafla.

Kristján var á leið frá Reyðarfirði til Akureyrar og var staddur nálægt bænum Grímsstöðum á fjöllum í svarta þoku þegar hann tók eftir því að lækur hafði myndast meðfram veginum. „Ég var nýbúinn að tala við annan bílstjóra og segja honum að það mætti ekki rigna mikið því þá væri vegurinn í hættu," segir Kristján í samtali við Vísi. Hann segir að sem betur fer hafi þokunni létt lítið eitt og þá hafi hann séð traktorsgröfu við vegarkantinn sem var að reyna að losa klakahröngl frá ræsi við veginn. „Þá sá ég að það var farið að flæða upp á veginn og ég ákvað að stoppa. Það var eins gott því þegar ég reyndi að bakka þá skildi tengivagninn eftir gat í veginum sem ég komst ekki yfir."

Kristján segist þá hafa farið út úr bílnum og séð að svelgur hafi myndast aftan við bílinn. Maðurinn á traktorsgröfunni reyndi að mynda undankomuleið fyrir bílinn, sem er flutningabíll með tengivagni, en í þann mund gaf vegurinn sig og bíllinn sökk niður á stuðara.
Eins og sjá skolaði veginum burt á löngum kafla.
„Þá fór ég út úr honum aftur og gat lítið gert annað en að horfa á hann velta á hliðina. Stuttu seinna fór vegurinn í sundur fyrir framan bílinn og síðan fyrir aftan og eftir stutta stund var heljarinnar fljót komið þar sem vegurinn hafði verið," segir Kristján sem er frá Akureyri. Hann segir óljóst um ástand bílsins en gerir ekki ráð fyrir að hann verði ökufær á næstunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×