Innlent

Pétur Blöndal: Athæfi samgöngunefndar undarlegt

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir undarlegt að sex þingmenn samgöngunefndar hafi gist á hóteli á höfuðborgarsvæðinu á kostnað Alþingis eftir fundarhöld, þó fimm þeirra haldi heimili þar. Oft sé hins vegar æskilegt að þingnefndir fundi utan borgarmarkanna og þar jafnvel gist til að halda nefndarmönnum að verki.

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur síðustu kvöld fjallað um ferð samgöngunefndar um höfuðborgarsvæðið og þá ákvörðun sex nefndarmanna að gista yfir nótt á hóteli við Elliðavatn á kostnað Alþingis þó fimm þeirra haldi heimili á höfuðborgarsvæðinu.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis segir að hann hafi oft skipulagt fundarlotur og ferðir nefnda sem hann hafi farið fyrir og oft sé valið að ræða málin fjarri skarkala höfuðborgarinnar og þá oft gist. Það hafi vafalaust verið tilgangurinn hjá samgöngunefnd að halda flestum nefndarmönnum á einum stað frá fundarlokum að kvöldi og fram að fundi morguninn eftir.

Pétri finnst undarlegt að gist hafi verið svo nærri heimahúsum þingmanna en telur að einblína ætti frekar á stærri útgjaldarliði ríkissjóðs sem skipti meira máli.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×