Lífið

Marín Manda heldur jólin í Danmörku

Marín Manda Magnúsdóttir.
Marín Manda Magnúsdóttir.

„Ég fagna jólunum með tengdafjölskyldunni minni í ár hér í Kaupmannahöfn," svarar Marín Manda Magnúsdóttir sem er búsett í Danmörku þar sem hún rekur barnafataverslun þegar Vísir forvitnast um hennar jólahald.

„Við verðum sirka 15 manns svo það verður mikil gleði og mikið pakkaflóð þegar svona margir eru saman komnir. Það verður því ansi skrautlegt þegar við dönsum í kringum jólatréð," segir Marín Manda.

Þó finnst karlinum mínum alveg nauðsynlegt að hafa „Flæskesteg", segir Marín Manda.

Fannst neyðarlegt að raula jólalög

„Fyrir nokkrum árum síðan fannst mér hálf neyðarlegt að haldast í hendur, raula jólalög og taka sporin í kringum tréð en nú finnst mér það hrista svo vel upp í mannskapnum. En að sjálfsögðu er þetta lang skemmtilegast fyrir börnin."

„Frá því að ég var barn borðuðum við fjölskyldan alltaf fyllta önd á aðfangadag. Sú hefð hefur því ekkert breyst. Þó finnst karlinum mínum alveg nauðsynlegt að hafa „Flæskesteg" líka svo að nú er bæði á boðstólum. Smjatt, ég hlakka mikið til."

„Sonur minn, Bastian Blær, er nýorðinn 7 mánaða svo að ég er enn í fæðingarorlofi ef kalla má orlof. Þegar maður er með sjálfstæðan rekstur þá er víst ekki mikið frí sem að maður fær en hef ég reynt að gera mitt besta með annan fótinn í vinnunni og hinn heima við."

„Það má með sanni segja að árið 2008 hefur verið annasamasta ár lífs míns. Ég hef verið ansi heppin að vera með frábærar stelpur í vinnu sem að hafa aðstoðað mig mjög mikið," segir Marín Manda.

Saknar Íslands

„Ég skal alveg viðurkenna að á þessum tíma sakna ég ætíð Íslands. Um síðustu jól vorum við á landinu og það var svo yndislegt. Snjór, myrkur, laufabrauð og mömmu- matur," segir Marín Manda.

„Það er þó á hreinu að hér munum við upplifa falleg jól. Ég er búin að skreyta heimilið hátt og lágt með „fair trade" jólaskrauti og föndri dóttur minnar. Laufabrauð fékk ég sent að heiman og ég get ekki beðið eftir að sjá svipinn á börnunum þegar þau opna sinn fyrsta pakka. Það eru jólin," segir Marín Manda áður en kvatt er með hlýrri jólakveðju.

Skoða heimasíðu barnafataverslunarinnar Baby-kompagniet.dk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.