Innlent

„Þau verða að fara að gefa borgarbúum frí frá þessu.“

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur segist hafa orðið vitni að gamalkunnum töktum á stjórnarfundinum í dag. Þegar lögð var fram tillaga um að gera úttekt á REI og losa fyrirtækið úr áhættusömum rekstri. Hún segir meirihlutann óboðlegann fyrir borgarbúa.

„Þetta eru sömu vinnubrögð og viðhöfð voru í október," segir Svandís og vísar í fundinn þegar lagt var til að sameina REI og Geysi Green Energy. „Tillagan í dag var lögð fram á fundinum án þess að hún væri kynnt fyrir okkur í stjórninni áður."

Svandís segir að tillagan feli í raun í sér að selja verkefni frá REI sem gangi í berhögg við niðurstöðu stýrihópsins sem fór yfir REI málið á sínum tíma auk þess sem tillagan gangi gegn yfirlýsingum Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra um að REI verði áfram í eigu almennings.

„Það er ljóst að þau ætla að koma með einhliða stefnumótun fyrir REI án nokkurs samráðs," segir Svandís og bætir við að henni þyki viðbrögð meirihlutans krampakennd.

„Þetta er bara enn ein sönnun þess að meirihlutinn er algjörlega óboðlegur fyrir borgarbúa. Ítrekað koma þau fram með vanreifaðar og ókláraðar tillögur," segir Svandís og bætir við að henni finnist að núverandi meirihluti verði að fara að pakka saman eins og hún orðar það. „Þau verða að fara að gefa borgarbúum frí frá þessu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×