Innlent

BSRB vill skammtíma samning

Ögmundur Jónasson, formaður BSRB.
Ögmundur Jónasson, formaður BSRB. MYND/ÞÖK

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, hvetur til þess að þegar í stað hefjist viðræður við fjármálaráðuneytið um skammtíma samning. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórn BSRB sendi frá sér í dag.

„Í ályktuninni ítrekar stjórnin mikilvægi þess að kjör innan almannaþjónustunnar verði stórbætt. Svo er komið að mjög víða er þar við alvarlega manneklu að stríða sem rekja má til bágra kjara og er brýnt að taka af alvöru á þeim vanda, segir í tilkynningu frá samtökunum.

Ályktun stjórnar BSRB fer orðrétt hér á eftir:

„Stjórn BSRB ítrekar hve mikilvægt er að stórbæta kjör innan almannaþjónustunnar. Svo er komið að mjög víða er þar við alvarlega manneklu að stríða sem rekja má til bágra kjara og er brýnt að taka af alvöru á þeim vanda. Kjarakannanir hafa sýnt fram á, svo ekki verður um villst, að launagliðnun hefur orðið á milli almannaþjónustunnar annars vegar og stórra geira á almennum vinnumarkaði hins vegar. Þá minnir stjórn BSRB á marggefin fyrirheit um að bæta kjörin innan almannaþjónustunnar og hefur m.a. ítrekað verið vísað í umönnunarstéttir í því efni. Í ljósi þess hve skammur tími er til stefnu, þar sem kjarasamningar við ríkið eru lausir um næstu mánaðamót, og vegna þeirra óveðursskýja sem hrannast hafa upp í efnahagslífinu, með verðbólgu sem teygir sig í tveggja stafa tölu, telur stjórn BSRB æskilegt að gerður verði skammtímasamningur við fjármálaráðuneytið og þar með fengið svigrúm til að taka ávörðun um leiðir að framangreindu marki.

Stjórn BSRB hvetur til þess að þegar í stað hefjist viðræður við fjármálaráðuneytið um skammtíma samning.

Mikilvægt er að skapa víðtæka samstöðu um að hamla gegn verðbólgu og jafna kjörin í þjóðfélaginu. Launafólk gerir sér grein fyrir skaðsemi óðaverðbólgu sem rýrir lífskjörin með ógnarhraða; lánskjörin þyngjast og útgjöld heimilanna hækka eftir því sem verðbólguhjólin snúast hraðar. Stjórn BSRB minnir stjórnvöld á mikilvægi almannaþjónustunnar og ábyrgð stjórnvalda hvað hana varðar. Almannaþjónustuna verður að efla en ekki veikja með niðurskurði og einkavæðingu. Þá er grundvallaratriði að skipulagsbreytingar verið ekki framkvæmdar í ósátt við samtök launafólks. Þetta verða stjórnvöld að íhuga af alvöru. Öflug samfélagsþjónusta er kjölfestan í samfélaginu. Á þá kjölfestu reynir því meir eftir því sem meira gefur á bátinn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×