Innlent

Olíusamráðsmálinu frestað enn um sinn

Forsvarsmenn Olíufélaganna funda með samkeppniseftirliti árið 2005 Enn er ekki fyrirséð hvenær niðurstaða fæst í mál olíufélaganna gegn Samkeppniseftirlitinu og ríkinu. Þau vilja ekki borga sekt fyrir samráðið.
Forsvarsmenn Olíufélaganna funda með samkeppniseftirliti árið 2005 Enn er ekki fyrirséð hvenær niðurstaða fæst í mál olíufélaganna gegn Samkeppniseftirlitinu og ríkinu. Þau vilja ekki borga sekt fyrir samráðið. fréttablaðið/stefán

Olíufélögin fóru fram á frest í máli þeirra gegn Samkeppniseftirlitinu og ríkinu og boðuðu að þau legðu fram nýjar matsbeiðnir í því þegar það var tekið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur fyrr í mánuðinum.

„Það er því fyrirsjáanlegt að málið mun halda áfram og dragast enn um allmarga mánuði. Leggi þau fram nýja matsbeiðni tel ég útilokað að unnt verði að flytja þetta mál fyrr en í fyrsta lagi haustið 2009,“ segir Heimir Örn Herbertsson, lögmaður stjórnvalda.

Málið hefur verið rekið fyrir dómstólum síðan árið 2005. Félögin krefjast ógildingar þeirrar ákvörðunar að þau séu sek um samráð, en til vara að sekt þeirra verði lækkuð. Félögin voru upphaflega sektuð um 2,6 milljarða, en áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði hana síðar í 1,5 milljarða.

Þegar félögin brugðust við sektinni og höfðuðu mál óskuðu þau eftir því að kallaðir væru til dómskvaddir matsmenn til að greina forsendur sektarinnar, segir Heimir Örn.

Eftir mánaðabið hafi niðurstaða borist, sem sagði að hugsanlegt væri að félögin hefðu engan ávinning haft af samráðinu.

Þá lét Samkeppniseftirlitið kalla til yfirmatsmenn til að hnekkja niðurstöðu matsmannanna og lagði fram svokallaða undirmatsbeiðni til að láta meta önnur atriði en olíufélögin létu meta.

Niðurstaða þessa var yfirmatsgerð sem var „algjörlega ósammála undirmati [félaganna]“ segir Heimir Örn. Samkvæmt henni hefðu félögin hagnast á brotum sínum, langt umfram sektarupphæðina.

Þetta mat hafi verið lagt fram fyrir allnokkru en málinu síðan frestað til þessa mánaðar, svo olíufélögin gætu ákveðið hvort þau vildu freista þess að hnekkja undirmatinu eða fresta flutningi málsins.

Heimir Örn segir að strangt til tekið séu engin tímamörk í málarekstri af þessu tagi. „Það er ekkert sjálfkrafa stopp sem kemur í það og það er mikil tilhneiging til að gefa málsaðilum mikið svigrúm til að meta sjálfir hvað þeim finnst nauðsynlegt að sanna.“ Málsmeðferðin verði þó ekki endalaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×