Innlent

Borgaði fimmtánfalt gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra

Það þykir varla mörgum gaman að láta af hendi rúmar 100þúsund krónur án þess að fá nokkra skýringu.
Það þykir varla mörgum gaman að láta af hendi rúmar 100þúsund krónur án þess að fá nokkra skýringu.

Gjald sem maður borgar í Framkvæmdasjóð aldraða er fast gjald, 7103 krónur á ári og innheimtist með öðrum sköttum. Frank Cassata, tölvunarfræðingur hjá CCP, lenti samt sem áður í því að fá þrjá reikninga síðasta haust sem hver fyrir sig var á bilinu 30-40 þúsund krónur. Voru engar aðrar skýringar á þessum reikningum nema rukkun fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra.

,,Ég reyndi að leita skýringa hjá skattinum en einu svörin sem ég fékk var ,,já þetta er fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra" sem þegar stóð á reikningnum. Þeim fannst þetta skrýtið en sögðu mér að ég þyrfti samt að borga reikningana annars færi þetta í innheimtu. Síðan benti skatturinn mér á að tala við tollinn sem aftur benti mér á skattinn. Að lokum fékk ég bréf frá einhverjum starfsmanni skattsins sem var fullt af þéringum og illa skiljanlegu orðalagi og vísaði í lög sem ég hafði ekki á hraðbergi." sagði Frank í samtali við Vísi í dag.

Frank borgaði reikningana þar sem hann hafði engan áhuga á að þeir færu í innheimtu og var kominn í þrot með hvert hann ætti að leita til þess að fá útskýringar á þessum dularfullu reikningum.

Síðan gerðist það nýverið að lagðar voru tvær upphæðir inn á reikning hans 77 þúsund krónur og 45 þúsund krónur. ,,Ég hafði fengið bréf frá skattinum í apríl þar sem stóð 45 þúsund krónur, en eftir að hafa rýnt lengi og vel í það til að reyna að skilja fornt orðalagið og finna út hvort þeir væru að rukka mig eða endurgreiða mér þá ákvað ég bara að bíða átekta og sjá hvort þeir myndu borga mér eða senda mér aðra rukkun."

,,Það versta í þessu finnst mér að skatturinn geti sent manni reikninga hvenær sem er sem án nokkurra skýringa nema Framkvæmdasjóð aldraðra og síðan þegar maður leitar til þeirra þá reyna þeir að vísa eitthvert annað eða í einhver lög sem venjulegt fólk skilur kannski ekki. Ef maður borgar ekki fer þetta í innheimtu, sumir reikningana voru meira að segja þannig að eindaginn var daginn eftir að ég fékk þá." sagði Frank.

Frank bjóst við að eiga víst rúm á elliheimili í framtíðinni eftir allar þessar greiðslur í Framkvæmdasjóð aldraða.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×