Innlent

Villtur á hálendinu í fjóra sólarhringa

Gangnamenn sem fundu Spánverja í jaðri Ódáðahrauns hafa að öllum líkindum bjargað lífi hans. Varðstjóri lögreglunnar á Húsavík segir að svo virðist sem maðurinn hafi lagt bíl sínum á svokallaðri Trölladyngjuleið og ákveðið að fara í göngutúr. Hann hefur síðan villst og ekki fundið bílinn á ný. Maðurinn hefur sennilega verið á göngu í fjóra daga og var hann mjög máttfarinn þegar gangnamenn fundu hann fyrir tilviljun, en svæðið er að sögn varðstjórans eins fjarri mannabyggðum og unnt er að komast hér á landi. Hann er nú á sjúkrahúsi til aðhlynningar.

Að sögn lögreglu var hann lagstur fyrir og bærði hann ekki á sér fyrr en mennirnir komu alveg að honum. Bíll mannsins er fundinn og er verið að vinna í því að koma honum til byggða.

Gangamennirnir voru að leita að fé á svæðinu snemma í morgun. Þegar þeir ætluðu að fara að keyra yfir vað í Krossá sem rennur í Sjálfanda sáu þeir hvað maður lá skammt frá hreyfingarlaus. Páll Kjartansson bóndi í Víðikeri er einn þeirra.

Páll segir manninn hafa verið mjög máttfarinn og kaldan og lítið geta tjáð sig. Hann segir manninn hafa verið illa útbúinn fyrir langa göngu á hálendinu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×