Innlent

Miltisbrandshræ í gámi í átta mánuði

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ekki er mögulegt að brenna miltisbrandssmitaðar dýraleifar og jarðveg hér á landi enn sem komið er. Þetta segir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir í samtali við Vísi. Leifar af dýrum sem fundust 2. nóvember í fyrra á svipuðum slóðum og beinin í Garðabæ í gær eru enn í geymslu.

„Það vantar brennslumöguleikann og þær sitja bara enn þá lokaðar inni í gám. Það mál er í vinnslu hjá umhverfisráðuneytinu og Umhverfisstofnun þar til hægt er að koma þessu í brennslustöð sem getur brennt það. Þetta er í öruggri geymslu og smitast ekkert út frá því," sagði Halldór.

Ekkert óeðliegt við að byggja á miltisbrandsslóðum

Haraldur Briem sóttvarnalæknir kvað ekkert óeðlilegt við að mannabústaðir væru byggðir þar sem miltisbrandsgró hefðu fundist: „Það er alveg eðlilegt. Mönnum stafar engin hætta af þessu. Þótt einhver gró séu undir húsi stafar okkur engin hætta af því. Hættan sem af þessu stafar er fyrst og fremst fyrir dýr og einkum grasbíta. Dýrin fá þessi gró þá í meltingarveginn og þá stafar mönnum hætta af þessu þegar þeir fara að handfjatla þessi dýr og borða þau. Líka ef verið er að flá dýr og vinna ull og svo framvegis."

Haraldur segir miltisbrand fyrst hafa borist til Íslands með húðum frá Afríku á 19. öld. Ekki sé talið að miltisbrandur hafi verið til á Íslandi fyrir þann tíma. Þessar húðir hafi svo verið fluttar hingað og þangað um landið. Haraldur segir að rætt sé um kaup á færanlegum brennsluofni til að meðhöndla svona tilfelli sem eins væri hentugur ef fuglaflensusmit kæmi upp. Þá væri mikilvægt að sýkt dýrahræ væru flutt sem minnst milli staða.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×