Innlent

Síbrotamaður sendur í fangelsi

Tvítugur Reykvíkingur var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 11 mánaða fangelsi fyrir að hafa þrívegis ekið bifreið undir áhrifum vímuefna. Í tvö skipti af þessum þremur var maðurinn með fíkniefni í sinni vörslu.

Maðurinn fékk 11 mánaða fangelsi fyrir þessi brot. Það þykir nokkuð þungur dómur. Eða alveg þangað til litið er á sakaferil mannsins.

Hann var með dómi í desember 2006 sakfelldur fyrir fjögur þjófnaðarbrot, umboðssvik, gripdeild, heimildarlausa töku bifreiðar í fjögur skipti, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og fyrir að hafa í sjö skipti ekið bifreið sviptur ökurétti.

Fyrir þessa afbrotasúpu fékk maðurinn 20 mánaða fangelsi en inn í því var 12 mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing sem maðurinn hlaut 13. febrúar 2006 fyrir þjófnaðarbrot, stórfelld eignaspjöll og fíkniefnabrot.

Þessu til viðbótar hefur maðurinn tvívegis gengist undir sektagreiðslu fyrir að aka bifreið yfir lögleyfðum hámarkshraða, en í fyrra skiptið var hann að auki sviptur ökurétti í 5 mánuði.

Á sakavottorði mannsins eru þar að auki tilgreindar fjórar lögreglustjórasáttir frá 4. september 2006 fyrir akstur bifreiðar sviptur ökurétti.

Loks var maðurinn með dómi 21. september 2007 sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik, nytjastuld og eignaspjöll, en ekki gerð sérstök refsing.

Svo 11 mánaða fangelsi er kannski alveg sanngjarn dómur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×