Innlent

Fagnar því að seðilgjöld verði felld niður

MYND/Hilmar Þór

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, fagnar því að fella eigi niður seðilgjöld og væntir þess að síðari skref sem stigin verða í tengslum við gjaldtöku banka og sparisjóða verði í þágu neytenda.

Viðskiptaráðherra kynnti í morgun skýrslu starfshóps sem fór yfir gjaldtöku fjármálafyrirtækja. Þar kom fram að til stæði að fella niður seðilgjöld, takmarka álagningu uppgreiðslugjalda og jafnframt að óheimilt verði að innheimta svokallaðan FIT-kostnað nema það hafi stoð í samningi.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, fagnar því að banna eigi seðilgjöld. „Þetta er fyrsta skrefið og við væntum þess að síðari skref verði einnig í þágu neytenda því í þessum viðskiptum hallar verulega á neytendur," segir Jóhannes og bendir á að eftir eigi að vinna betur úr hugmyndum um uppgreiðslugjald. Um önnur skref í málinu segir Jóhannes að horfa þurfi til löggjafar á þessu sviði.

Um FIT-kostnaðinn, það er kostnað vegna óheimils yfirdráttar, segir Jóhannes að Neytendasamtökin hafi lagt áherslu á að hann verði sá sá sannanlegi kostnaður sem viðkomandi banki eða sparisjóður verði fyrir vegna óheimils yfirdráttar. „Við höfum bent á að neytendur eru að greiða dráttarvexti og til viðbótar hátt krónutölugjald. FIT-kostnaður á að vera í samræmi við kostnað banka og sparisjóða. Þetta á ekki að vera þeim tekjulind," segir Jóhannes.

Aðspurður segir Jóhannes að Neytendasamtökin hafi ekki reiknað nákvæmlega út hver ávinningurinn verði fyrir neytendur af niðurfellingu seðilgjalda en bendir á að fólk geti komist hjá seðilgjöldum með því að afþakka seðla og láta skuldfæra reikninga. Fyrir þá sem enn fái alla reikninga senda heim í seðlum geti kostnaðurinn þó að líkindum skipt tugum þúsunda á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×