Lífið

Reisir Eiffelturn Suðurnesja

Líkan af Norðurljósaturnum Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar, sem rísa mun á Suðurnesjum.
Líkan af Norðurljósaturnum Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar, sem rísa mun á Suðurnesjum.

Guðmundur Rúnar Lúðvíksson varð þekktur á níunda áratugnum fyrir lög á borð við Súrmjólk í hádeginu. Nú er hann með nýtt verkefni á teikniborðinu sem á eftir að vekja mikla athygli.

Listamaðurinn Guðmundur Rúnar Lúðvíksson hefur fengið styrk upp á hálfa milljón frá Menningarráði Suðurnesja til að reisa verk sitt, Norðurljósaturnana, á Reykjanesi. „Þetta verður Eiffelturn Suðurnesja!“ segir Guðmundur. „Verkið verður átta metra hátt. Staðsetningin hefur ekki verið ákveðin enn þá, en ég er með nokkra heppilega staði í huga.“

Hugmynd Guðmundar er margslungin. Í gegnum fjögur málmrör verður hægt að horfa til himins óháð ljósi í kring. Rörin nýtast einnig sem hljóðlistaverk því öll umhverfishljóð magnast inni í þeim og þegar sungið er inni í þeim fást út mögnuð hljóð. Guðmundur vonast til að tenórarnir fjórir syngi inni í rörunum við vígslu verksins. „Ég vona að það verði nú bara sem fyrst,“ segir listamaðurinn. „Ég er búinn að finna út hvers lags málm ég nota, en það á eftir að útfæra ákveðna verkfræði varðandi verkið. Þetta er aðeins flóknara en að stilla gítar.“

Guðmundur er afkastamikill og fæst við ýmiss konar listræn verkefni auk turnasmíði, málar og teiknar, skrifar bækur og hefur samið ótal lög á ferlinum, meðal annars eitís-smellina „Háseta vantar á bát“ og „Súrmjólk í hádeginu“. Fjöldi plötutitla liggur eftir hann og nýjasti diskurinn heitir Dinglað upp á fólkið, sem hann gaf út í byrjun desember í takmörkuðu upplagi.

Guðmundur varð ansi sár út í ráðamenn í Keflavík fyrr á árinu þegar gengið var framhjá lagi sem hann sendi í Ljósanætursamkeppnina, en segist nú búinn að sættast við bæinn. „Ég er hér í góðu yfirlæti en maður verður nú bara að fá að hafa skoðanir. Á sínum tíma var ég ósáttur við framkvæmdina á keppninni, en það er svo sem ekkert nýtt að framkvæmdir við lagakeppnir séu skrítnar. Einu sinni sendi ég til dæmis tóma spólu í Eurovision og fékk til baka bréf frá Hrafni Gunnlaugssyni, sem ég á enn þá. Þar stóð að lagið væri gott, en því miður kæmist það ekki í úrslit. Ég ætti þó endilega að halda áfram að fást við tónlist!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.