Innlent

Ekkert lát á byggingaleyfisumsóknum í Kópavogi

Ekkert lát virðist vera á umsóknum um byggingaleyfi í Kópavogi þrátt fyrir kreppu á fasteignamarkaði. Um sextán hundruð íbúðir eru fokheldar á höfuðborgarsvæðinu þar af um þriðjungur í Kópavogi.

Fasteignamarkaðurinn hefur verið ískaldur á þessu ári og veltan í síðasta mánuði sú minnsta síðan mælingar hófust árið 2001. Þinglýstum kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu í júní fækkaði um 80% milli ára og því hefur verulega dregið úr eftirspurn.

Á meðan byggingarkostnaður hefur hækkað um nærri 20% á síðastliðnum tólf mánuðum hefur raunverð fasteigna farið lækkandi. Mörg verktakafyrirtæki sem hafa sérhæft sig í byggingu íbúðahúsnæðis standa nú uppi með óseljanlegar eignir.

Um 2.500 byggingaleyfum hefur verið úthlutað á höfuðborgarsvæðinu. Mest í Reykjavík en minnst á Seltjarnarnesi. Þá eru um 1.500 íbúðir fokheldar samkvæmt tölum fasteignamats Ríkisins. Í Reykjavík eru 300 íbúðir fokheldar, í Hafnarfirði 430, Garðabæ 134. 150 íbúðir eru fokheldar í Mosfellsbæ, ein á Seltjarnarnesi og 48 á Álftanesi.

Í Kópavogi eru 527 íbúðir fokheldar en þar er einnig búið að úthluta 417 byggingaleyfum til viðbótar.

Aðstoðarmaður byggingafulltrúa Kópavogs, Einar Sigurðsson, segir ekkert lát á umsóknum og að það muni langan tíma að fara í gegnum þær allar. Hann óttast ekki að fólk muni hætta og ganga frá hálf kláruðum húsum. ,,Fólk sækir um og það ætlar sér að byggja og svo náttúrulega breytast aðstæður í þjóðfélaginu og það getur haft áhrif á framgang mála."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×