Innlent

Öryggisvörðurinn var ekki með kylfu heldur lítinn sprota

Breki Logason skrifar
Verslun 10-11 í Austurstræti
Verslun 10-11 í Austurstræti MYND/VALLI

Egill Guðjónsson framkvæmdarstjóri Öryggisgæslunnar segir öryggisvörð á vegum fyrirtækisins ekki hafa verið með kylfu við störf sín í verslun 10-11 í Austurstræti í nótt. Öryggisvörðurinn sem er útlendingar var með lítinn sprota sem hann bar án vitundar fyrirtækisins að sögn Egils.

„Þetta er svona lítill sproti sem hann var með erlendis en hann er lærður öryggisvörður eftir tveggja ára nám sem hann gekkst undir," segir Egill hjá Öryggisgæslunni.

Fyrirtækið sér um öryggisgæslu í verslun 10-11 í Austurstræti og segir Egill smá beig hafa verið í mönnum eftir árás sem varð á öryggisvörð þar í febrúar. Egill segir að fyrirtækið hafi ekki haft hugmynd um sprotann og hafi brugðið nokkuð þegar fréttist af honum.

Lögreglan ein má bera vopn hér á landi en „sprotinn" flokkast undir vopn samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Öryggisvörðurinn bar því við að hann hefði borið „sprotann" við störf sín erlendis og hefði ekki vitað betur en að svo mætti hann einnig hér á landi.

Egill segir að búið sé að fara yfir upptökur af atvikinu en öryggisvörðurinn beitti aldrei „sprotanum".

„Gunnar Hilmarsson hjá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sem kíkti á atvikið sagði að hann hefði staðið mjög fagmannlega að þessu. Hann hélt þjófinum í fjarlægð frá sér allan tímann," segir Egill að lokum.






Tengdar fréttir

Segir kylfu ekki hafa verið beitt gegn þjófi

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri 10-11, segir að öryggisvörður í verslun fyrirtækisins við Austurstræti virðist ekki hafa beitt kylfu gegn þjófi sem tekinn var í nótt.

Öryggisvörður í 10-11 með kylfu

Öryggisvörður í verslun 10-11 í Austurstræti á yfir höfði sér kæru fyrir brot á vopnalögum eftir að hafa verið með kylfu þegar hann var að handtaka þjóf í versluninni í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×