Innlent

Segir kylfu ekki hafa verið beitt gegn þjófi

MYND/Valli
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri 10-11, segir að öryggisvörður í verslun fyrirtækisins við Austurstræti virðist ekki hafa beitt kylfu gegn þjófi sem tekinn var í nótt. Myndir úr öryggismyndavél í versluninni sýni hann ekki beita kylfunni.

Greint var frá því í fréttum í morgun að öryggisvörðurinn eigi yfir höfði sér kæru fyrir brot á vopnalögum fyrir að bera kylfu við störf sín en aðeins lögreglumenn mega bera kylfur. „Ég er ekki búinn að fá upptöku frá lögreglu en ég með myndir úr öryggismyndavél úr versluninni. Þær sýna að maðurinn gengur aðeins út úr versluninni en þegar hann kemur inn aftur er hann stálsleginn. Ég sé því ekki betur en að kylfunni hafi aldrei verið beitt," segir Sigurður og bætir við að þjófurinn hafi verið stálsleginn þegar hann fór upp í lögreglubíl.

Öryggisvörðurinn, sem er erlendur, bar því við að í sínu heimalandi þætti sjálfsagt að menn við öryggisgæslu bæru kylfur til að verja sig. Sigurður segir 10-11 kaupa öryggisgæslu frá Öryggisgæslunni sem vakti verslunina. „Þeim ber að fara eftir lögum og reglum og ég efast ekki um að þeir geri það," segir Sigurður og bætir við að farið verði yfir málið til þess að koma í veg fyrir að það endurtaki sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×