Innlent

Guðmundur og köttur hans sluppu naumlega úr brunanum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Mundi er mikið hraustmenni en það hlýtur að taka á alla að lenda í svona," sagði Hrafn Jökulsson, íbúi í Trékyllisvík í Árneshreppi, en þar brann íbúðarhús Guðmundar Þorsteinssonar, Finnbogastaðir, í gærmorgun. Guðmundur og köttur hans komust einir af.

„Hann var inni þegar kviknaði í og eldurinn virðist hafa breiðst út geysilega hratt. Honum tókst að komast út en gat ekki bjargað hundunum sínum, Týru og Kollu, sem voru í kjallaranum," sagði Hrafn enn fremur.

„Þetta kom upp í kjallara og flestir telja að kviknað hafi í út frá miðstöð þar. Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins og í öðru lagi afskekktasta sveit landsins. Það eru 100 kílómetrar suður til Hólmavíkur sem er stóra plássið í Strandasýslu. Auk þess er vegurinn ekki góður svo slökkvilið kom ekki hingað fyrr en allt var farið sem farið gat. En hér voru allir komnir sem vettlingi gátu valdið að reyna hið ómögulega," útskýrði Hrafn.

Hann segir þetta ekki bara spurningu um að missa húsið og allt sitt, þarna hafi Guðmundur fæðst og fjölskylda hans búið á Finnbogastöðum í marga ættliði. „En þetta er líka mikið áfall fyrir þessa litlu byggð. Hér eru átta bæir og við megum ekki við að missa einn einasta þeirra í eyði," sagði Hrafn að lokum.

Félag Árneshreppsbúa hefur opnað söfnunarreikning í Sparisjóði Strandamanna til styrktar Guðmundi. Reikningsnúmerið er 1161-26-001050 og kennitalan 451089-2509.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×