Innlent

Grunaður um brot gegn sjö manns

Karlmaður á sextugsaldri situr í gæsluvarðhaldi eftir að sjö börn og fullorðnir kærðu hann fyrir kynferðisbrot, sum mjög gróf.

Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun að karlmaður á fimmtugsaldri hefði setið í gæsluvarðhaldi síðan í apríl vegna rannsóknar á meintum kynferðisbrotum gagnvart börnum sem tengd eru fjölskyldu hans.

Tvær kærur bárust frá barnaverndarnefnd í apríl en síðan hafa nokkrar bæst við. Meint brot varða sjö einstaklinga, sumir eru enn á barnsaldri en aðrir eru uppkomnir. Öll brotin eiga að hafa átt sér stað á meðan fólkið var á barnsaldri. Megnið af kærunum koma í gegnum barnaverndarnefnd á höfuðborgarsvæðinu.

Gæsluvarðhald yfir manninum var framlengt síðastliðinn fimmtudag til 14. maí. Björgvin vildi ekki upplýsa um efni kæranna en sagði að meint brot væru allt frá því að vera minni háttar og upp í mjög gróf kynferðisbrot og þau næðu yfir langt árabil.

DV fullyrðir í dag að maðurinn sé háskólakennari og að kærurnar snúist meðal annars um nauðganir gegn dætrum hans, syni og vinkonu einnar dótturinnar. Eins kemur fram í DV að elstu brotin hafi verið framin fyrir hartnær 15 árum en þau nýjustu í vetur. Fréttastofa hefur fengið staðfest að kært var vegna þriggja dætra mannsins.

Viðamiklar breytingar voru gerðar á kynferðisbrotalögum í fyrra, meðal annars var fyrningarákvæðinu breytt þannig að sök fyrnist ekki í mjög alvarlegum brotum. Sú breyting er hins vegar ekki afturvirk og því gæti verið að hluti af hinum meintu grófu kynferðisbrotum í þessu máli séu fyrnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×