Innlent

Nokkur erill hjá slökkviliði í nótt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu átti nokkuð annríkt í nótt og kom til þriggja útkalla. Um klukkan hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um eld í skipi er lá við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.

Hafði þar kviknað í rafmagnsofni í ljósavélarými og fór fjölmennt lið á staðinn. Eldurinn reyndist þó minni en útlit var fyrir í fyrstu en unnið var að viðhaldi um borð. Nokkrar reykskemmdir urðu um borð.

Um klukkan hálfeitt í nótt sprakk rör í kælikerfi fyrirtækis í Grafarvogi og freon lak þar út. Slökkvilið fór á staðinn og reykræsti húsnæðið. Freon er hættulegt í miklum mæli en af því er sterk lykt og fer ekki milli mála þegar slíkur leki kemur upp. Starfsfólk sem á staðnum var hafði því forðað sér út tímanlega.

Þá kviknaði eldur í ruslatunnu í miðbænum sem slökkvilið vann fljótt bug á. Engar skemmdir urðu á öðru en tunnunni. Rennir slökkvilið í grun að um íkveikju hafi verið að ræða þótt ekki séu það staðfestar upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×