Innlent

Fundi skipulagsráðs frestað aftur

Fundi skipulagsráðs borgarinnar, sem halda átti í dag, hefur verið frestað fram í næstu viku.

Þær upplýsingar fengust hjá borginni að það væri vegna flutninga skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar en sviðið undirbýr gögn fyrir fundi skipulagsráðs. Þetta er í annað sinn sem fundi skipulagsráðs er frestað. Í síðustu viku stóð til að halda fund en honum var frestað og að sögn Bjarkar Vilhelmsdóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í skipulagsráði, var þá einnig borið við flutningum skipulags- og byggingarsviðs.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Ólafur F. Magnússon borgarstjóri ákveðið að víkja Ólöfu Guðnýju Valdimarsdóttur úr ráðinu sem fulltrúa sínum og bar hann við trúnaðarbresti, meðal annars í tengslum við byggingu Listaháskóla Íslands við Laugaveg. Í staðinn hyggst borgarstjóri skipa Magnús Skúlason í ráðið. Mannabreytingarnar verða teknar fyrir á borgarráðsfundi á morgun og því er útlit fyrir að þær gangi í gegn fyrir næsta fund skipulagsráðs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×