Innlent

Dettifossvegur á beinu brautina

Ekkert getur nú komið í veg fyrir að Dettifossvegur, gamalkunnugt þrætuepli á Norðausturlandi, verði lagður. Um mikla samgönubót verður að ræða.

Framkvæmdir við Dettifossveg eru nú loks að hefjast eftir tveggja mánaða tafir í sumar þegar tveir af landeigendum svæðisins sem vegurinn liggur um, neituðu að skrifa undir samning um eignarnámsbætur. Nú hefur verið lögð fram trygging um bæturnar í kjölfar þess að eignarnámsnefnd fór um og kortlagði svæðið allt og lagði fram greinargerð.

Aðilar í ferðaþjónustu og þá ekki síst á Norðausturlandinu hafa beðið árum saman eftir nýjum Dettifossvegi. Þetta verður heilsársvegur með bundnu slitlagi í stað malarvegar nú og algjör bylting að sögn hótelstjórans í Hótel Reynihlíð, Péturs Snæbjörnssonar.

Dettifossvegur á að vera tilbúinn fyrir 1. október 2009. Hann verður 22 kílómetra langur. Árni Helgason verktaki bauð 564 milljónir í stærsta verkhlutann sem var nokkuð undir kostnaðaráætlun. Heildarframkvæmdakostnaður verður nokkuð hærri.

Birgir Guðmundsson sem fer fyrir Vegagerðinni á Norðurlandi segir óheppilegt að ekki hafi verið hægt að hefja framkvæmdir fyrr en nú, en norðaustursvæðið sé gjarnan þurrviðrasamt á haustin og því sé mögulegt að komast vel af stað í verkinu í haust verði tíðarfar hagstætt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×