Innlent

Forseti Alþingis heimsótti Dúmuna

Íslenski sendihópurinn í Rússlandi
Íslenski sendihópurinn í Rússlandi

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans eru í opinberri heimsókn í Rússlandi þessa dagana, í boði forseta Dúmunnar.

Með forseta í för eru Ásta R. Jóhannesdóttir, 1. varaforseti Alþingis, Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, auk Helga Bernódussonar skrifstofustjóra Alþingis og Jörundar Kristjánssonar, alþjóðaritara á skrifstofu forseta Alþingis.

Ræddu tvíhliða viðskipti landanna

Forseti Alþingis og sendinefndin áttu í gær fund með Vladimir G. Titov, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands. Á fundinum voru rædd tvíhliða viðskipti landanna, m.a. á sviði orkumála og samstarf í rannsóknum og vísindastarfi. Þá var rætt um átökin í Georgíu og ítrekaði forseti Alþingis afstöðu íslenskra stjórnvalda um að virða beri alþjóðlega viðurkennd landamæri Georgíu og harmaði átökin, einkum mannfall almennra borgara. Þá kom forseti Alþingis á framfæri athugasemdum við aukið yfirflug rússneskra flugvéla á íslensku flugumsjónarsvæði.

Heimsækir íslensk fyrirtæki



Á morgun halda forseti Alþingis og íslenska sendinefndin til St. Pétursborgar og munu þar eiga fundi með fulltrúum héraðsþings St. Pétursborgar og heimsækja íslensk fyrirtæki á svæðinu.  Opinberri heimsókn forseta Alþingis í Rússlandi lýkur nk. mánudag.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×