Erlent

Bretar dónalegri en fyrir áratug

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lögregla á göngu í London.
Lögregla á göngu í London. MYND/AP

Bretar eru dónalegri nú en fyrir 10 árum ef marka má niðurstöður skoðanakönnunar sem birtar voru í dag. Rúmlega 90% þátttakenda telja foreldra bregðast því hlutverki sínu að innprenta börnunum sómasamlega hegðun og að ósiðir poppstjarna og knattspyrnugoða hafi slæm áhrif á ómótaðan barnshugann.

Nærri 75% þeirra sem spurðir voru telja að kennsla í mannasiðum eigi að vera á námskrám skóla. Meðal hegðunar sem mest fór fyrir brjóstið á fólki er bölsót og hráki á almannafæri en skammt undan voru ruðningur í biðröðum og sú háttsemi að þakka ekki fyrir sig.

„Ég hugsa að þetta sé hluti af því hvernig þjóðfélagið er að molna í sundur, t.d. hvernig við hættum að bera virðingu fyrir yfirvöldum einfaldlega vegna þess að yfirvöldin hættu að fyrirskipa það," sagði siðameistarinn Diana Mather í viðtali við Trevor McDonald en aðstandendur spjallþáttar hans framkvæmdu könnunina.

Reuters greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×