Innlent

Ók Þingvallaveg á 245 km hraða - Eitt grófasta brot sem lögreglumenn hafa séð

Andri Ólafsson skrifar

Lögreglumenn stóðu mann að því í fyrrakvöld að aka bifhjóli á 245 km hraða eftirÞingvallavegi í fyrrakvöld. Þetta er eitt grófasta hraðasktursbrot sem lögreglumenn hafa orðið vitni að.

Ökumanninum var ekki veitt eftirför en bæði hann og þeir sem á vegi hans urðu, voru að sögn lögreglu augljóslega í mikilli hættu.

Guðbrandur Sigurðsson lögreglumaður hjá Umferðardeil lögreglunnar á Höfuðborgasvæðinu segir að það sé vonlaust að finna ökumanninn.

"Það gefur auga leið að þegar menn eru á þessum hraða þá sést bara hvítt strik í nokkur sekúndubrot, svo er hjólið bara horfið," segir Guðbrandur.

Hann bætir því við að það hefði verið óðs manns æði að reyna eftirför.

"En ég vona þess í stað að þetta slái ökumenn þannig að þeir aki með ábyrgum hætti þessa miklu ferðahelgi sem nú er framundan," segir Guðbrandur.

Þess má geta að þar sem lögreglan mætti bifhjólamanninum í fyrrakvöld, nærri afleggjaranum að Skálafelli, varð banaslys fyrir nokkrum árum en þá lést bifhjólmaður. Kross í minningu bifhjólamannsins er nú í vegkantinum á þessum sama stað.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×