Erlent

Geldingar halda árlega hátíð sína á Indlandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Iðandi mannkösin í Tamil Nadu.
Iðandi mannkösin í Tamil Nadu. MYND/AP

Árleg hátíð geldinga, klæðskiptinga og samkynhneigðra fer nú fram í Villupuram-héraðinu í Tamil Nadu-fylki á Indlandi.

Hátíðina sækja um 70.000 manns og stendur hún í eina viku í Koothandavar-klaustrinu.

Hápunktur hátíðarinnar er hin táknræna athöfn tveggja eldri manna sem binda hnút og minnast þar hjónabands hindúaprinsins Aravans og Herrans Krishna sem kom til hans í gervi yngismeyjar til að uppfylla ósk hans um að eiga brúðkaupsnótt áður en honum var fórnað í heilagri styrjöld.

Geldingar, klæðskiptingar og samkynhneigðir álíta þessa fornu goðsögn og skírskotun hennar til samkynhneigðar heilaga. Er hér um að ræða einu hátíð samkynhneigðra á Indlandi. Á hátíðinni gengur fjöldi samkynhneigðra í hjónaband og skilur aftur degi síðar til að helga goðsögnina.

„Tilgangur hátíðarinnar er að stefna okkar fólki saman og sýna hæfileika okkar. Þetta er það sem okkur er mikilvægt og við viljum sýna," sagði Lalitha, ungur geldingur. Eftir hinn táknræna skilnað baðar fólkið sig í vatnstanki og skrýðist hvítum kyrtli sem táknar hreinsunina. Því fylgir svo svardagi um að koma til hátíðarinnar á ný árið eftir og endurtaka helgiathöfnina. Undanfarin ár hefur fjöldi geldinga erlendis frá sótt hátíðina til að kynnast helgisiðum hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×