Innlent

Heildarafli íslenskra skipa minni en í fyrra

Heildarafli íslenskra skipa í nóvember, metinn á föstu verði, var 4,1% meiri en í nóvember 2007. Það sem af er árinu hefur aflinn hins vegar dregist saman um 3,5% miðað við sama tímabil 2007, sé hann metinn á föstu verði.

Aflinn nam alls 117.854 tonnum í nóvember 2008 samanborið við 106.168 tonn í nóvember 2007.

Botnfiskafli jókst um 5.200 tonn frá nóvember 2007 og nam tæpum 41.200 tonnum. Karfaaflinn jókst um tæp 3.900 tonn, þorskaflinn um rúm 2.500 tonn og afli ufsa um tæp 600 tonn miðað við nóvember 2007. Ýsuaflinn dróst hinsvegar saman um tæp 3.200 tonn samanborið við nóvember 2007.

Afli uppsjávartegunda nam tæpum 74.500 tonnum og var nær eingöngu síld. Uppsjávarafli jókst um tæp 5.600 tonn frá nóvember 2007. Síldaraflinn nam rúmum 74.400 tonnum og jókst um rúm 5.500 tonn frá nóvember 2007. Flatfiskaflinn var rúm 1.900 tonn í nóvember og jókst um rúm 700 tonn frá fyrra ári. Skel- og krabbadýraafli nam tæpum 200 tonnum og jókst um rúm 100 tonn miðað við nóvember 2007.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×