Innlent

Strætó fær rauða akrein

Malbikunarframkvæmdir fara fram í dag á Miklubraut þar sem verið er að malbika sérakrein fyrir strætisvagna með rauðu malbiki. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem notað er rautt sérinnflutt granít frá Skotlandi. Malbikið er blandað járnoxíði þannig að sem rauðastur litur fáist á yfirborð vegarins. „Með þessu er verið að tryggja að rauði liturinn haldist þegar malbikið slitnar," segir Ólafur Ólafsson, deildarstjóri framkvæmda hjá Framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að akreinin sem um ræðir sé sérakrein fyrir strætisvagna á norðurakbraut frá Skeiðarvogi að göngubrú yfir Miklubraut til móts við Kringluna. „Einnig verða hægri beygjuvasar af Miklubraut inn á Grensásveg og Háaleitisbraut lengdir og hliðrað til norðurs. Allar lagnir umferðarljósa á gatnamótum Miklubrautar við Grensásveg og Háaleitisbraut verða endurnýjaðar ásamt umferðareyjum og umferðarljós verða færð til og endurnýjuð. Jafnframt er unnið að endurnýjun gönguleiða á gatnamótum. Settar hafa verið upp götuvitabrýr yfir Miklubraut á þessum sömu gatnamótum og eykur það öryggi vegfarenda. Niðurföll hafa verið endurnýjuð í norðurkanti Miklubrautar og regnvatnslagnir að hluta. Hljóðmön verður gerð norðan Miklubrautar frá Grensásvegi að göngubrú við Kringlu."

Þá segir einnig að verkið hafi tekið lengri tíma en áætlað var og er nú gert ráð fyrir verklokum um miðjan september.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×