Skoðun

Stormviðvörun

Björn Ingi Hrafnsson skrifar
Nú þegar tæpt ár er síðan skall á með efnahagslegu fárviðri víða um heim með eiginfjárbruna sem jafnast aðeins á við það sem gerðist í lok þriðja áratugar síðustu aldar í kreppunni miklu, er ekki undarlegt þótt íbúar eyjunnar fallegu í norðri láti áhyggjur af peningamálum og atvinnuhorfum lönd og leið og gleðjist þess í stað yfir vörmum geislum sólarinnar, klæði sig í skjólminni spjarir en vanalega - njóti lífsins og slaki ofurlítið á.

Hér á þessum vettvangi hefur um nokkurt skeið verið varað við því ástandi sem líklegt er að skapist á haustmánuðum. Viðbúið er að fjölmörg fyrirtæki þrjóti örendi í því ógnarástandi sem nú varir með okurvöxtum, verðbólgu í hæstu hæðum og aðgengi að fjármagni og fyrirgreiðslu í algjöru lágmarki. Einhverjir hafa sagt þetta bölsýni, jafnvel áróður. Þeir hinir sömu, verða eflaust látnir færa rök fyrir þeim ásökunum sínum í september eða október, þegar þúsundir vinnufærra karla og kvenna hafa misst atvinnu sína og horfa fram á mikla erfiðleika við að standa straum af síhækkandi afborgunum af skuldbindingum sínum, að ekki sé talað um kostnaðinn við að sjá sér og sínum farborða, sem virðist aukast nánast dag frá degi.

Hér skal því líka spáð að staðan í íslenskum stjórnmálum taki mið af þessari þróun á næstu mánuðum. Með réttu eða röngu er ríkjandi valdhöfum kennt um slæmt ástand, því hefur Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, aldeilis fengið að kynnast síðustu vikurnar. Það er sárt að sitja í ríkisstjórn og þurfa að taka mikið af erfiðum ákvörðunum, sem eru jafnvel í algjörri mótsögn við vilja baklands stjórnmálamanna. Þetta munu stjórnarflokkarnir þó reyna í fjárlagagerðinni næstu vikur og mánuði, þar sem skera þarf útgjöldin niður umtalsvert í ljósi stórminnkandi tekna ríkis­sjóðs. Alvöru niðurskurður hefur nánast ekki þekkst í fjárlagagerðinni síðustu ár; síðast þurfti í alvöru að grípa til hans í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar, 1991-1995. Þær aðgerðir bitnuðu þá pólitískt hart á gamla Alþýðuflokknum.

En hvað gerist nákvæmlega á næstunni, ef enginn raunverulegur bati verður næstu daga? Jú, það verður gripið til hagræðingaraðgerða af öllum stærðum og gerðum. Fyrirtækin reyna að verja það litla sem er þó eftir af þeirra eigin fé og skera niður kostnað, mest með uppsögnum á fólki, en einnig aðkeyptri þjónustu, vörum og auglýsingum, svo dæmi tekið. Allur kostnaður við ferðir, risna hefur þegar verið nánast slegin af, sem og nýframkvæmdir. Endurbótum hefur víða verið slegið á frest. Hvað þýðir þetta? Jú, afleiddum störfum fækkar líka, því auðvitað hafa þúsundir einnig haft atvinnu af þessari þjónustu, t.d. við fjármálafyrirtækin. Kaupþing mun þannig vera stærsti einstaki viðskiptavinur flugfélaganna og einnig fjölmargra hótela, þar sem kaupsýslumenn í viðskiptaerindum frá útlöndum kaupa dýra þjónustu.

Enn er er ótalinn vandi aðila í byggingariðnaði sem sitja uppi með óseldar eignir, en áfram tikkar himinhár fjármagnskostnaðurinn. Margir þessara aðila munu ekki þola við miklu lengur. Fyrirtæki í sjávarútvegi glíma við skertar aflaheimildir og himinháan fjármagns- og eldsneytiskostnað, enda þótt afurðaverð hafi hækkað á heimsmarkaði og styrkst enn með gengissveiflum krónunnar.

Við sjáum kreppueinkennin í Kauphöllinni. Skráðum félögum hefur fækkað og virði einstakra félaga hefur hrunið. Margir stóreignamenn horfa á eftir aleigu sinni; sumir jafnvel ættarsilfri síðustu áratuga. Það hafa margir átt þung spor í bankann síðustu daga. Íslensku rekstrarfélögin, t.d. Bakkavör, Teymi og Eimskipafélagið, hafa farið sérstaklega illa út úr niðursveiflunni, þar sem eiginfjárhlutfallið fælir frá. Þegar veltan var aðalmálið og lánsfé nægt, höfðu menn minni áhyggjur af hlutfalli eiginfjár. Í lánsfjárkrísunni verða slík vandamál nánast himinhrópandi. Við skulum ekki láta okkur bregða þótt mörg fleiri félög horfi til afskráningar úr Kauphöllinni af þessum sökum; leiti fremur vars og bíði af sér storminn.

Önnur félög horfa ekki aðeins til afskráningar, heldur eru þau tilbúin að ganga skrefinu lengra. Baugur Group hefur þegar selt eignir sínar hér á landi og hyggst flytja aðalstöðvar sínar af landi brott. Munu aðrir fylgja þeirra fordæmi? Hvað gera íslensku bankarnir, ef stjórnendur þeirra meta það svo að hagsmunum hluthafanna sé betur borgið með því að flytja starfsemina annað? Hvaða áhrif hefðu slík tíðindi á íslenskt efnahagslíf?

Þegar Veðurstofan gefur út stormviðvaranir sínar fylgir oft með almenn hvatning til landsmanna um að gæta að lausamunum, festa þá niður og leita skjóls. Það á einnig við í efnahagsmálunum nú. Eini munurinn er sá og það er hughreystandi að við ráðum engu um veðrið sem okkur er boðið upp á. Þegar kemur að þjóðarhag getum við haft talsverð áhrif, jafnvel úrslitaáhrif.

En verður það gert?




Skoðun

Sjá meira


×