Erlent

Ísraelar búa sig undir umfangsmikinn stríðsrekstur

Ísraelar hafa undirbúið umfangsmikið stríð gegn Hamas-samtökunum á Gaza og loftárásir síðustu daga aðeins fyrsta skrefið. Ísraelskir miðlar hafa þetta eftir forsætisráðherra Ísraels og segja hann gera ráð fyrir hernaði næstu vikurnar.

Ísrelsher varpaði sprengjum á Gaza í morgun, fjórða daginn í röð. Tólf Palestínumenn féllu í þeim árásum, þar á meðal tvær systur, tíu og tólf ára. Palestínumenn segja þrjú hundruð fjörutíu og átta liggja í valnum fleiri en átta hundruð íbúa særða. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna segja að meðal fallinna séu sextíu og tveir almennir borgarar.

Fjórir Ísraelar, þar af einn hermaður, hafa fallið í flugskeytaárásum Palestínumanna.

Ísraelskir fjölmiðlar vitnuðu í morgun í samtal Ehuds Olmerts, forsætisráðherra Ísraels, og Shimons Peres Ísraelsforseta. Haft er eftir Olmert að loftárásir síðustu daga séu aðeins fyrsta skrefið af mörgum í stríði gegn Hamas-samtökunum. Barist verði næstu vikurnar.

Herlið hefur verið flutt að landamærum Gaza og Ísraels og búist við innráns á næstu dögum. Varalið hefur verið kallað út.

Þingkosningar verða í Ísrael eftir sex vikur. Fastlega er búist við að Líkúdflokkur hægrisinnaðra hauka í ísraelskum stjórnmálum fari þá með sigur af hólmi og ríkisstjórn miðflokka undir forystu Kaídamflokks Olmerts og nýs leiðtoga utanríkisráðherrans Tzipi Livni hrökklist frá völdum.

Aðgerðum Ísrela hefur verið mótmælt víða um heim og það verður einnig á Lækjartorgi í Reykjavík klukkan fjögur síðdegis. Þá hefur Féalgið Ísland Palestína boðað til útifundar. Þar verður þess krafist að árásir Ísraelshers á Gaza verði stöðvaðar og stjórnmálasambandi við Ísrael verði slitið.

Ræðumenn á fundinum verða María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna, Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri-grænna, og Séra Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur í Neskirkju. Fundarstjóri verður Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×