Innlent

Meirihluti heyrnarlausra í láglaunastörfum

Sum fyrirtæki taka ekki í mál að ráða heyrnarlausa til starfa og önnur krefjast þess að Félag heyrnarlausra gangist í ábyrgð fyrir þá sem þeir ráða. Þetta segir atvinnuráðgjafi félagsins.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá máli þrítugs tækniteiknara sem er heyrnarlaus og hefur verið synjað um starf hátt í sjötíu sinnum. Laila Margrét Arnþórsdóttir atvinnuráðgjafi hjá Félagi heyrnarlausra segir þá hafa litla atvinnumöguleika þó þeir hafi framhaldsmenntun. Viðbrögð fyrirtækja séu mismunandi gagnvart heyrnarlausum starfsmönnum.

„Til dæmis í Álverinu þar hefur verið þvertekið fyrir það að ráða inn heyrnarlausa þó svo maður geti bent á það að heyrnarlausir hafi til dæmis mun víðara sjónsvið en aðrir. Margir heyrnarlausir voru hér á árum áður eftirsóttir sjómenn af því þeir voru svo athugulir," segir Laila.

Önnur fari fram á að félagið gangist í ábyrgð.

„ Við höfum fengið viðbrögð þar sem óskað hefur verið eftir því að Félag heyrnarlausra bæri ábyrgð á starfsmanninum að við yrðum einhvers konar eftirlitsaðilar. Það er eins og við eigum að bera ábyrgð á starfsmanninum og kröfur fyrirtækja séu stundum að ef eitthvað kemur upp á þá yrðum við að sjá til þess að þetta gangi til baka," bætir Laila við.

Hátt í tvö hundruð manns eru í Félagi heyrnarlausra og segir formaður þess að meirihluti félagsmanna sé í láglaunastörfum. Hún segir þetta sorglega staðreynd.

„Við fáum ekki tækifæri til að nýta menntunina okkar vegna þess að það er hópur heyrnarlausra sem fær ekki sömu tækifæri til að nota þá menntun sem þeir hafa aflað sér eins og aðrir. Við getum gert allt, við þurfum bara að fá viðurkenningu og tækifæri til að sýna að við stöndum jafnfætis öðrum," segir Hjördís Anna Haraldsdóttir formaður Félags heyrnarlausra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×