Innlent

Fagnar hugmyndum um nýtt dómhús

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, segir það alveg ljóst að það þurfi að vera skýr aðskilnaður milli dómstóla og ákæruvaldsins. Það sé sú hefð sem sé viðhöfð á Norðurlöndunum og víðar.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagðist á vefsíðu sinni í síðustu viku vilja stefna að því að nýtt hús verði reist fyrir héraðsdóm og embætti ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Þar vill hann jafnframt að litið verði til aðstöðu fyrir millidómstig, komi það til sögunnar. „Ef hægt er að útfæra þetta á þann hátt að sýnilegur aðskilnaður verður augljós, þá kemur allt til greina," segir Símon. Hann bendir á að menn séu almennt sammála um að halda eigi skýrum aðskilnaði á milli dómstóla og ákæruvalds.

Símon segir að dómsmálaráðherra hafi ekki rætt þessar hugmyndir við sig, en þær séu í sjálfu sér fagnaðarefni. „Ef að okkur býðst að fara í annað hús sem er sérhannað fyrir dómstóla og er staðsett á góðum stað í miðborginni að þá fögnum við öllum slíkum áformum," segir Símon. Hann segist hafa heyrt af því að borgaryfirvöld geti hugsað sér að nýta húsnæðið að Lækjartorgi með öðrum hætti. Hann segist jafnframt gera sér grein fyrir því að Björn Bjarnason hafi að ýmsum húsnæðismálum að huga. Þar á meðal sé nýtt húsnæði fyrir lögregluna og nýtt fangelsi. Hann býst því ekki við því að nýtt dómhús rísi alveg í bráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×