Innlent

Segir samgöngur til Vestmannaeyja gjörbreytast 2010

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Elliði Vignisson bæjarstjóri.
Elliði Vignisson bæjarstjóri. MYND/Óskar P. Friðriksson

„Við erum enn að fara yfir þetta og skoða og vega og meta," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, um stöðuna í viðræðum um tilboð Vestmannaeyinga í smíði og 15 ára rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju „Það ríkir mjög gagnkvæmt traust og skilningur á þessum snertiflötum sem eru til skoðunar í málinu. Nú er bara að halda áfram og kanna til hlítar hvort lending næst," sagði hann.

Elliði á ekki von á að málinu ljúki alveg á næstu dögum, samningsaðilar þurfi líka að gefa sér tíma hverjir í sínu lagi þegar búið sé að fara yfir málið á sameiginlegum fundum. Samningsaðilar af hálfu hins opinbera eru Ríkiskaup og Siglingastofnun. „Það sem skiptir mestu er það að árið 2010 gjörbreytast samgöngur til Vestmannaeyja, það er lykilatriði," sagði Elliði að lokum.

Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, sagði málið á viðkvæmu stigi og vildi ekki tjá sig um það í fjölmiðlum að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×