Skoðun

Heilbrigt fjölskylduumhverfi

Helga Guðrún Guðjónsdóttir skrifar

Helga Guðrún Guðjónsdóttir skrifar um Unglingalandsmót UMFÍ:

Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands, það ellefta í röðinni, verður haldið í Þorlákshöfn dagana 1.-3. ágúst. Á mótinu verður keppt í frjálsum íþróttum, glímu, golfi, hestaíþróttum, knattspyrnu, körfuknattleik, motorcross, skák og sundi. Keppendur eru á aldrinum 11 til 18 ára.

Auk íþróttakeppninnar er ýmislegt í boði og ættu allir að geta fundið sér eitthvað við hæfi. Sérstaka athygli vekur sú mikla dagskrá sem er fyrir 11 ára og yngri en þau hafa ekki keppnisrétt á mótinu. Glæsileg leiktæki, hoppkastali, rennibraut o.fl verður sett upp á mótssvæðinu og einnig verða í boði íþróttaklúbbarnir ,,Fjörkálfaklúbbur 6-10 ára“ og ,,Sprelligosaklúbbur 5 ára og yngri“. Aðgangur er ókeypis.

Fjölbreytt menningardagskrá verður alla dagana sem menningarnefnd Ölfuss hefur sett saman með mótshöldurum. Kvöldvökur verða öll kvöldin og mótinu verður slitið með kröftugri flugeldasýningu.

Umgjörð mótsins í Þorlákshöfn verður glæsileg. Byggður hefur verið alvörukeppnisvöllur með stórkostlegri umgjörð. Heimamenn hafa því lagt mikinn metnað í undirbúning og framkvæmd mótsins sem er án efa skynsamlegasta og skemmtilegasta fjölskyldu-, íþrótta- og forvarnahátíð sem hægt er að hugsa sér. Mót þar sem unglingar og íþróttir eru í fyrirrúmi og stórfjölskyldan getur tekið þátt.

Mótin hafa vakið verðskuldaða athygli og hafa fyrir löngu sannað gildi sitt. Þeir fjölmörgu sem þau hafa sótt hafa verið öðrum til fyrirmyndar í allri framkomu, hvort sem um er að ræða í keppni, leik eða umgengni. Keppnin snýst um að taka þátt og vera með og gleðjast yfir afrekunum.

Það verður gaman að vera í Þorlákshöfn um verslunarmannahelgina. Ef þú hefur ekki tekið ákvörðun um hvert förinni skuli heitið um verslunarmannahelgina skaltu koma í Þorlákshöfn og njóta þess að upplifa unglingalandsmót. Flestir þeir sem hafa verið á mótunum hingað til koma aftur. Hvað er betra en að foreldrar og börn njóti þess að vera saman í marga daga á slíku móti?

Njótum þess að vera saman á unglingalandsmóti í Þorlákshöfn þar sem saman fer keppni, skemmtun, gleði og vinarþel.

Höfundur er formaður Ungmennafélags Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×