Innlent

Landeigendur rukka fyrir myndatökur á Jökulsárlóni

Landeigendur við Jökulsárlón hafa af því nokkrar tekjur að rukka fyrir myndatökur á lóninu. Venjulegir ferðamenn sleppa þó við gjaldtöku.

Hvöss umræða hefur verið um gjaldtöku á ferðamannastöðum undanfarna daga vegna deilna ferðaskrifstofa og eigenda Kersins í Grímsnesi. Slík gjaldtaka er þó fráleitt ný af nálinni, hvorki hérlendis né erlendis.

Þannig hafa eigendur Jökulsárlóns lengi fengið greitt fyrir ferðamenn sem um lónið fara. Þeir hafa einnig haft nokkrar tekjur af þeim sem þar vilja taka myndir. Þá er verið að tala um myndatökur vegna atvinnustarfsemi.

Jónas Runólfsson, talsmaður landeigenda sagði í samtali við fréttastofuna að talsvert væri um slíka viðburði.

Við lónið hafa verið teknir upp kaflar fyrir tvær James Bond myndir og líka fyrir kjarnakonuna Löru Croft í Tomb Raider.

Þá er lónið vinsælt svið fyrir sjónvarpsþætti og auglýsingar. Jónas sagði að þegar farið væri í atvinnuskyni inn á land annarra til þess að framleiða þar vöru sem hægt væri að selja fyrir háar upphæðir erlendis, væri sjálfsagt að landeigendur fengju eitthvað fyrir sinn snúð.

Venjulegir ferðamenn sem hefðu sínar myndavélar með í bátsferðum um Jökulsárlón væru hinsvegar alveg látnir í friði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×