Innlent

Sigurður má ekki verja Jón - Ákvörðun kærð til Hæstaréttar

Jón Ólafsson við þingfestingu málsins fyrr í sumar ásamt tveimur öðrum sakborningum í málinu.
Jón Ólafsson við þingfestingu málsins fyrr í sumar ásamt tveimur öðrum sakborningum í málinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag þeirri kröfu Jóns Ólafssonar athafnamanns að bæði Ragnar Aðalsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson verði verjendur hans í máli ákæruvaldsins á hendur Jóni vegna meintra skattalagabrota. Sú ákvörðun verður kærð til Hæstaréttar að sögn Ragnars Aðalsteinssonar.

Þetta var í annað sinn sem dómurinn tók afstöðu til kröfunnar en í fyrra skiptið kom upp misskilningur á milli saksóknara og dómara annars vegar og Ragnars hins vegar þar sem Ragnar hafði gert ráð fyrir því að fá að færa rök fyrir kröfu Jóns. Dómarinn las hins vegar strax upp úrskurðinn um að Sigurður mætti ekki verja Jón.

Þessa ákvörðun kærði Jón til Hæstaréttar sem fól Hérasdómi Reykjavíkur að fjalla aftur um málið og leyfa Ragnari að flytja rök sín. Nú hefur Héraðsdómur sem sagt komist að niðurstöðu aftur og staðfest fyrri úrskurð en bent hefur verið á að Sigurður gæti verið kallaður til sem vitni í málinu.

Jón Ólafsson er ákærður fyrir að hafa svikið alls um 360 milljónir króna undan skatti. Með honum eru ákærðir þrír menn sem störfuðu hjá Norðurljósum og undirfyrirtækjum þess.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Jóns, sagði ákvörðun héraðsdóms í dag verða kærða til Hæstaréttar. Önnur skref í málinu eru þau að málflutningur verður þann 20. október varðandi frávísunarkröfu Jóns Ólafssonar á málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×