Innlent

Vill rannsaka rannsókn Baugsmálsins

SB skrifar
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Vill rannsókn á rannsókn Baugsmálsins.
Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Vill rannsókn á rannsókn Baugsmálsins.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vill sjálfstæða rannsókn á Baugsmálinu. "Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og eðlilegt að hann myndi stjórna rannsókn á málinu," segir hann.

Áður hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagt að íslensk stjórnvöld hljóti að draga lærdóma af útkomu Baugsmálsins.

"Hæstiréttur veitti öllum sem komu að útgáfu þessa tiltekna reiknings sýnilega jafna og réttláta málsmeðferð. Bersýnilegt er að dómstólar kveða upp úr um að umfang rannsóknarinnar og ákæranna sem gefnar voru út upphaflega var alls ekki í samræmi við tilefnið," sagði hún í yfirlýsingu.

Aðeins eitt dæmi er í íslenskri réttarsögu um að sjálfstæð rannsóknarnefnd á vegum þingsins hafi verið skipuð. Það var árið 1955 í svokölluðu Okurlánamáli.

"Það er heimild í 39. grein stjórnarskrárinnar að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varðar," segir Sigurður Líndal lagaprófessor. Hann segist aðeins reka minni til að sú heimild hafi verið notuð einu sinni. Árið 1955.

Baugsmálið er orðið hluti af réttarsögunni og því held ég að best sé að fela réttarsögufræðingum skoðun Baugsmálsins," segir Sigurður spurður um tillögu Lúðvíks. Sigurður er menntaður réttarsögufræðingur og bætir við: "...án þess að ég sé að bjóða mig sérstaklega fram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×