Innlent

Segja engan fót fyrir sögusögnum um stjórnarslit

Allt virðist í lukkunnar velstandi hjá ríkisstjórnarflokkunum ef marka má orð þeirra.
Allt virðist í lukkunnar velstandi hjá ríkisstjórnarflokkunum ef marka má orð þeirra. MYND/Eyþór

Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna segja stjórnarsamstarfið standa traustum fótum og vísa á bug orðum Roberts Wade, prófessors við London School of Economics, um að orðrómur sé um stjórnarslit hér á landi vegna efnahagsástandsins.

Þetta fullyrti Wade í grein á vef breska blaðsins Financial Times í gærkvöld þar sem hann fjallaði um efnahagsástandið á Íslandi. Wade, sem kom nýverið til landsins og hélt fyrirlestur við Háskóla Íslands, fullyrti að Samfylkingin hygðist hugsanlega slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og að blásið yrði til nýrra kosninga. Skoðanakannanir bentu til þess að Sjálfstæðisflokkurinn myndi gjalda dýru verði fyrir efnahagsástandið og að Samfylkingin gæti myndað nýja ríkisstjórn einum af minni flokkunum.

Fullkomlega úr lausu lofti gripið

„Þetta er fullkomlega úr lausu lofti gripið," segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra um þessar fullyrðingar. Hann segir samstarf ríkisstjórnarflokkanna hafa gengið vel og miklu betur en margir hafi haldið í upphafi.

„Auðvitað er ekkert mál að draga fram ágreiningsefni enda um ólíka flokka að ræða en ef menn eru einhvern tíma einbeittir að starfa vel er það einmitt nú þegar ástandið er svona," segir Björgvin og vísar til efnahagsþrenginganna. „Við vissum að það yrði stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar að koma Íslandi í gengum niðursveiflu og til viðvarandi stöðugleika. Við erum rétt byrjuð á því stóra verkefni og einbeitt í því. Það er því fjarri lagi að það séu einhverjir brestir í samstarfinu. Það hefur aldrei gengið betur," segir Björgvin.

Stjórnarslit ekki í farvatninu

Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það sé enginn einasti fótur fyrir sögusögnum um stjórnarslit. Hún segist einungis hafa heyrt af skrifunum í Financial Times en segist vera á ferðalagi með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, um Evrópu vegna EFTA-samstarfsins og segist geta fullyrt að stjórnarslit séu ekki í farvatninu.














Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×